Langtímavextir fara nú lækkandi á markaði og kann það að leiða til þess að Íbúðalánasjóður lækki vexti á íbúðalánum frekar. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur lækkað um allt að 14 punkta frá áramótum og bendir fátt til annars en að krafan muni lækka frekar á næstu vikum og mánuðum segir í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka. Ef tekið er mið af ávöxtunarkröfu íbúðabréfa við lok viðskipta í gær að viðbættu 0,6 prósentustiga vaxtaálagi Íbúðalánasjóðs jafngildir það útlánavöxtum upp á 4,05-4,10% samanborið við 4,15% vexti í dag.

"Ef spá okkar um þróun ávöxtunarkröfu íbúðabréfa á þessu ári gengur eftir og vaxtaálag sjóðsins verður óbreytt gætu vextir á íbúðalánum til almennings farið undir 4,0% fyrir mitt þetta ár," segir í Morgunkorninu.