*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 11. apríl 2021 11:32

Faraldurinn breytt Marel til framtíðar

Valdís Arnórsdóttir segir endurgjöf starfsfólks Marel sýna að fólk vill aukinn sveigjanleika í starfi til framtíðar.

Andrea Sigurðardóttir
Valdís Arnórsdóttir, stjórnandi í alþjóðlegu mannauðsteymi hjá Marel.
Eyþór Árnason

Valdís Arnórsdóttir, stjórnandi í alþjóðlegu mannauðsteymi hjá Marel, hefur leitt alþjóðlegt krísustjórnunarteymi fyrirtækisins í yfirstandandi heimsfaraldri. Hún segir faraldurinn hafa reynt á alla hlekki fyrirtækisins en að þau hafi verið vel í stakk búin til þess að takast á við áskoranirnar sem fylgdu. Teymið þurfti að huga að fjölmörgum praktískum lausnum vegna faraldursins en ekki síður að líðan starfsfólks. Þau sóttu reglulega endurgjöf til starfsfólks sem hefur hjálpað þeim að bregðast við ýmsum áskorunum, en endurgjöfin sýndi þeim jafnframt að starfsfólk Marel vill breytingar til framtíðar.

Þúsundir í fjarvinnu á tveimur vikum

Fyrir faraldurinn var farið að bera á umræðu um aukinn sveigjanleika starfa og sum fyrirtæki voru þegar farin að prófa sig áfram með slíkt fyrirkomulag að einhverju leyti, en faraldurinn fleygði mörgum fyrirtækjum beint ofan í djúpu laugina í þeim efnum. Valdís segir stóran hluta starfsfólks Marel um allan heim hafa flust yfir í fjarvinnu á aðeins tveimur vikum.

„Það gerist mjög hratt og því án alls undirbúnings. Það fara yfir þrjú þúsund starfsmenn heim á aðeins tveimur vikum, fjarvinnan tók við á hverju svæðinu á fætur öðru í takt við breytingar á sóttvarnareglum á hverju svæði. Það var í raun enginn með haldbæra reynslu af því að vinna svona mikið í fjarvinnu og stjórnendur ekki með reynslu af svo mikilli fjarstjórnun. Í þessu fólust margvíslegar áskoranir, við þurftum að tryggja að Internet tenging væri nægjanlega góð heima hjá starfsfólki, útvega fólki fartölvur þar sem þær vantaði og þess háttar. Við höfum sett upp gríðarlega góða upplýsingasíðu til að styðja við starfsfólk í fjarvinnu en þar eru til dæmis upplýsingar um hvernig setja skuli upp skrifstofu heima fyrir. Við höfum lagt mikla áherslu á að vera með góðan aðbúnað á vinnustöðum og það sama á við þegar fólk vinnur heima. Það þurfti vissulega að bregðast hratt og vel við stöðunni og það gekk í raun mun betur en við þorðum að vona."

Endurgjöfin verðmæt

Fjarvinnan reyndi ekki aðeins á praktísk atriði, hún hafði mikil áhrif á félagslegt umhverfi fólks og því þurfti að gæta að vellíðan starfsfólks.

„Þrátt fyrir að allt virðist ganga upp og fólk geti unnið verkefnin sín, þá vantar engu að síður félagslega þáttinn. Við finnum það öll að við söknum þess að hitta samstarfsfólk okkar og taka kaffispjallið. Við höfðum því ekki síður áhyggjur af áhrifum fjarvinnunnar á andlega heilsu fólks og vellíðan."

Frammistöðusamtöl hafa farið fram reglulega, auk viðhorfskönnunar, en í ljósi aðstæðna ákváðu þau að bæta við könnun um líðan starfsfólks.

„Tilgangurinn könnunarinnar var að heyra beint frá starfsfólki okkar hvernig það hefði það. Við gerðum okkur grein fyrir því að líðan fólks yrði misjöfn í öllum þessum breytingum, en okkur þótti mikilvægt að fá þeirra endurgjöf til þess að geta brugðist strax við því sem betur mætti fara. Við spurðum um líðan, hvort fólki liði eins, verr eða betur, við spurðum um streitustig, hvort það hafi aukist, og við spurðum um einmanaleika. Við spurðum jafnframt um framleiðni fólks, gæði funda og gæði vinnunnar. Langflest svörin hafa verið í þá átt að fólki líði eins eða jafnvel betur, en að sjálfsögðu eru líka einstaklingar sem líður verr í þessu ástandi og við því viljum við bregðast. Við fengum mjög dýrmæta endurgjöf úr þessum könnunum og gátum brugðist strax við ýmsu, til dæmis hvar við þyrftum að styðja betur við starfsfólkið, hvar við þyrftum að efla þjálfun, upplýsingagjöf og samskipti, og hvar bæta þurfti samskiptaleiðir og aðgengi að búnaði."

Sveigjanleg vinna komin til að vera

Í könnuninni var jafnframt horft fram á veginn og starfsfólk spurt um væntingar til fjarvinnu eftir að faraldrinum lýkur.

„Könnunin veitti okkur verðmætar upplýsingar um það hvernig starfsfólkið sér framhaldið fyrir sér og endurgjöfin var mjög afgerandi, starfsfólk vill aukinn sveigjanleika til framtíðar. Í kjölfarið hófum við að leggja drög að sveigjanlegu vinnuumhverfi og sú ákvörðun tekin að í Marel verði sveigjanlegt vinnuumhverfi til framtíðar. Stefna þess efnis hefur verið samþykkt og nú erum við að undirbúa innleiðingu hennar á öllum starfsstöðvum Marel. Starfsfólki gefst þannig kostur á því að vinna heima, að því gefnu að verkefnin séu þess eðlis að þau bjóði upp á það. Við ætlum að styðja fólk við að koma sér upp góðri og heilsusamlegri vinnuaðstöðu heima fyrir."

Með stefnunni er þó ekki verið að festa ákveðinn dagafjölda í fjarvinnu og að mati Valdísar er mikilvægt að sjálf stefnan um sveigjanlegt vinnuumhverfi sé sveigjanleg.

„Við viljum breyta vinnufyrirkomulaginu  til frambúðar þannig að sveigjanleg vinna verði í boði og að sem fæstar takmarkanir verði á því. Við viljum til dæmis ekki festa einhverja tvo daga í fjarvinnu, heldur að þetta sé þannig að það henti starfsmanninum, fyrirtækinu og þeim verkefnum sem við erum að vinna að hverju sinni. Í sveigjanlegri vinnu felst líka meira en bara möguleikinn á fjarvinnu, fólk getur verði með sveigjanlegan vinnutíma, sveigjanlega staðsetningu eða hvort tveggja. Alþjóðlegi ramminn er þannig aðeins til viðmiðunar. Honum verður dreift á allar starfsstöðvar sem svo aðlaga fyrirkomulagið að vinnulöggjöf og aðstæðum á hverjum stað, eftir því sem hentar hverju sinni."

Valdís segir reynslu þeirra af fjarvinnu í faraldrinum hafa styrkt trúna á að sveigjanlegt vinnuumhverfi sé raunhæft.

„Faraldurinn veitti okkur tækifæri til þess að prófa okkur áfram með fyrirkomulag fjarvinnu og við höfum lært gríðarlega mikið á því. Okkur hefur tekist að ryðja burt mörgum hindrunum, átta okkur á hvar fjarvinna hentar vel og hvar hún hentar síður. Allar þær hindranir sem við sáum fyrir okkur í upphafi höfum við getað leyst, þannig að við vitum hvar erfiðleikarnir liggja og hvernig við eigum að tækla þá. Við erum ekki lengur feimin við að stíga skrefið, bæði vegna þess að við erum reynslunni ríkari og að starfsfólkið okkar hefur svo sannarlega staðið undir því trausti sem við berum til þeirra."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér