Breska fyrirtækið BAA Plc., sem rekur stærstu flugvelli í Bretlandi og víðar, hefur endurmetið fyrri spá sína um Keflavíkurflugvöll og gerir nú ráð fyrir að fjöldi farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fari úr ríflega 1,6 milljónum árið 2004 í 3,1 milljón árið 2015 sem er nær tvöföldun á einum áratug. Þetta er um 10% fleiri farþegar en í hliðstæðri spá sama fyrirtækis árið 2001. Skipulagssérfræðingar BAA horfa til ýmissa þátta sem áhrif hafa svo sem hagvaxtar á Íslandi, fargjalda, markaðssóknar og vinsælda Íslands sem áningarstaðar ferðafólks.

Farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um 270 þúsund árið 2004 eða um 20%. Farþegafjöldinn var þannig 1.640 þúsund á nýliðnu ári en 1.370 þúsund árið 2003.

Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., segir ljóst að menn verði að halda vel á spöðum og hraða eftir mætti framkvæmdum við að stækka og breyta skipulagi í flugstöðinni til að halda í við farþegafjölgunina. Gert sé ráð fyrir að fjárfesta alls á fjórða milljarð króna í stækkun, breytingum og betri aðbúnaði fyrir farþega og flugrekendur á árunum 2004 og 2005 ? án þess að álögur á farþega og flugrekendur hafi verið auknar.

Sjálfur rekstur flugstöðvarinnar stendur að mestu undir fjárfestingunum og lánsfé að hluta segir í tilkynningu félagsins. Einu beinu tekjur flugstöðvarinnar af farþegum er svokallað innritunargjald, sex dollarar fyrir hvern innritaðan farþega. Innritunargjaldið hefur lækkað í íslenskum krónum síðastliðin tvö ár og hafði verið fyrir þann tíma óbreytt í dollurum í 15 ár.