Þrátt fyrir að olíuverð hafi farið lækkandi síðustu mánuði er ekki útlit fyrir að það muni skila sér í breyttu fargjaldi strætisvagna og leigubíla. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins um málið.

Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri Bifreiðastöðvar Reykjavíkur (BSR), segir í samtali við Fréttablaðið að lækkun olíuverðs komi aðeins í veg fyrir að leigubílaþjónusta fyrirtækisins hækki í verði. „Staðan er þannig að það er eitt og hálft ár síðan við hækkuðum síðast og það kostar töluvert að breyta mælunum því þeir þurfa löggildingu og svo framvegis. Þetta er kannski eins og hálfs til tveggja prósenta launahækkun fyrir bílstjórana þannig að við erum allavega ekki að fara að hlaupa til. En ef þetta helst svona hefur þetta þau áhrif að það verður síður þörf fyrir verðhækkun,“segir Guðmundur.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna gagnrýnir það að olíuverðslækkunin hafi ekki skilað sér í lægra fargjaldi strætisvagna, leigubíla og hópbíla og ítrekar í samtali við Fréttablaðið að eldsneytiskostnaður er stór kostnaðarliður í rekstri fyrirtækja á þessu sviði.