Icelandair flutti rúmlega 104 þúsund farþega í nóvember sl., sem er 10% fjölgun á milli ára í nóvembermánuði.

Heildarfjöldi farþega það sem af er ári nemur nú rúmlega 1,6 milljón sem er 18% aukning á milli ára.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group en heildarfjöldi farþega hjá Icelandair á síðasta ári nam tæplega 1,5 milljón, samanborið við tæplega 1,3 milljón farþega árið 2009. Í október fór fjöldi farþega það sem af er þessu ári yfir það sem hann var í fyrra.

Sætanýting Icelandair í nóvember var 77% sem er 3% aukning á milli ára í nóvember. Sætanýtingin það sem af er ári er nú tæp 80% og hefur aukist um 1% á milli ára.

Nokkur samdráttur í leiguverkefnum í nóvember

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, fækkaði um 1% á milli ára í nóvember þegar félagið flutti um 27 þúsund farþega. Farþegafjöldi félagsins jókst lítillega á milli ára í vor en á sama tíma í fyrra var lítið flogið innanlands vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Farþegum Flugfélags Íslands hefur fjölgað um 3% á milli ára það sem af er þessu ári og sætanýtingin um 1%.

Nýting flugflota í eigu Icelandair Group dróst saman á milli ára í nóvember eða um rúm 6%. Hér er átt við vélar í eigu samstæðunnar, meðal annars vélar sem leigðar eru út á vegum Lofteidir Icelandic, sem nýttar eru til leiguverkefna á vegum samstæðunnar. Nýting flugflotans jókst um 1% á milli ára á síðasta ári en hefur dregist saman 1% það sem af er ári.

Fraktflug á vegum Icelandair Cargo jókst um 13% á milli ára í nóvember. Samdrátturinn í fraktflugi á síðasta ári nam um 4% en aukningin það sem af er þessu ári nemur 13% á milli ára.

Þá jókst nýting hótelherbergja í eigu samstæðunnar um 3% á milli ára í nóvember og hefur þannig aukist um 2% það sem af er ári.