Fasteignafélagið Vatn og land tapaði 468 milljónum króna á síðasta ári. Þótt tapið hafi verið fjórtánfalt meira í fyrra þá hefur staða félagsins ekki batnað. Bókfært eigið fé fasteignafélagsins var neikvætt um tæpa 13,6 milljarða króna um áramótin síðustu og lánardrottna gjaldfella tugmilljarða lán til þess.

Fasteignafélagið Vatn og land hét áður Samson Properties og var undir einkahlutafélagahatti Samsonar, eignarhaldsfélagi feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Helsti eigandi félagsins er nú þrotabú Samsonar.

Hverfisgötureiturinn
Hverfisgötureiturinn
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fasteignafélag Björgólfsfeðga hafði um nokkurt skeið keypt upp fasteignir á ákveðnum reitum í miðborginni. Þar á meðal er reiturinn þar sem til hefur staðið um nokkurt skeið að reisa nýtt hús yfir Listaháskóla Íslands á mótum Laugavegar, Frakkastígs og Hverfisgötu. Vinningstillagan var lögð fram haustið 2008 og þótti umdeild. Þá var um skeið á teikniborði Samson Properties að byggja verslanamiðstöð á nokkrum reitum. Áætlanir um verslanamiðstöðina eru komnar skemur á veg. Fyrirhugað var að hún næði frá horni Laugavegar 65 að Laugavegi 71 og langleiðina niður að Skúlagötu.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur einn af lánardrottnum félagsins, ALMC, sem áður var fjárfestingarbankinn Straumur, gjaldfellt öll lán sín til Vatns og lands vegna brotinna lánaskilmála. Gjaldfallnar afborganir lána Vatns og lands nema samtals 12 milljörðum króna.

Heildarskuldir félagsins námu um síðustu áramót tæpum 17 milljörðum króna. Þar af voru rétt tæpir 9,9 milljarðar króna á gjalddaga á þessu ári.

Fram kemur í ársreikningi félagsins að viðræður standi yfir við lánardrottna um fjármögnunarvanda samstæðunnar og sé óvissa um niðurstöðu viðræðna. Þá segir í ábendingu í endurskoðenda fasteignafélagsins að rekstrarhæfi þess sé háð áframhaldandi fjármögnun og framlengingu lána. Takist ekki að tryggja fjármögnun áfram ríki veruleg óvissa um rekstrarhæfið.

Með eigin augum
Með eigin augum
© Aðsend mynd (AÐSEND)