Nú á dögunum lauk skiptum á þrotabúi fyrirtækisins K500 ehf. Gjaldþrot fyrirtækisins nam 92,6 milljónum króna. K500 ehf. hét fyrrum Njála ehf. Njála var í eigu Friðberts Bragasonar og fyrirtækisins Efniviður-Landmark ehf., samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins frá 2012.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var þá Magnús Einarsson. Tap Njálu ehf. árið 2012 nam 44,7 milljónum króna. Bókfært eigið fé félagsins var þá neikvætt um 83,7 milljónir króna. Í skýrslu stjórnar fyrir rekstrarárið segir að töluverð óvissa ríki um rekstrarhæfi félagsins. Þá hafi endurútreikningur erlendra gengislána félagsins sem og lögmæti gjaldmiðlasamninga sem félagið gerði við Landsbankann spilað stóran þátt í því erfiða gengi félagsins á árinu.

Það eru einmitt þessir gjaldmiðlasamningar milli Landsbankans og Njálu ehf. sem gera sögu fyrirtækisins áhugaverða, en svo fór fyrir dómstólum að fyrirtækið vann mál gegn Landsbankanum gamla um hvort fimmtíu milljóna króna krafa sem félagið gerði til slitabús bankans teldist til forgangskrafna eður ei.

Forsaga málsins var sú að fyrirtækið hafði átt í afleiðuviðskiptum gegnum bankann og tapað á þeim. Þá hafi reikningurinn sem rúmaði fyrrnefndar 50 milljónir ekki haft með afleiðuviðskiptin að gera, heldur væri einfaldlega venjulegur vörslureikningur og teldist því venjulega til reglna um forgangskröfur, verandi innlán.

Slitastjórn Landsbankans tók peninginn af þessum vörslureikningi þó upp í skuld vegna taps á afleiðuviðskiptunum fyrrnefndu, en Njála ehf. hafði verið skráð fyrir þeim sem fagfjárfestir. Deilan snerist um hvort réttmætt væri að greiða upp skuld afleiðuvið- skiptanna með þessum hætti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .