*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 10. janúar 2021 12:41

Fasteignaskattar veikt verslun í borginni

Framkvæmdastjóri FA, segir dæmi um að hár fasteignaskattur borgarinnar hafi spilað stóra rullu í ákvörðun fyrirtækja um að flytja sig um set.

Sveinn Ólafur Melsted
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Haraldur Guðjónsson

Icelandair mun að þremur árum liðnum færa höfuðstöðvar sínar frá Reykjavíkurflugvelli á Flugvelli í Hafnarfirði. Fleiri stórfyrirtæki hafa á undanförnum árum flutt eða vinna að brottflutningi úr höfuðborginni yfir í nágrannasveitarfélög.Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði eru, í samanburði við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, hæstir í Reykjavík. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er velt vöngum yfir því hvort hár fasteignaskattur sé að hrekja fyrirtæki úr borginni. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, kveðst þekkja dæmi um að há fasteignagjöld Reykjavíkurborgar hafi spilað stóra rullu í ákvörðun fyrirtækja um að flytja sig um set í nágrannasveitarfélög. Hátt fasteignamat samkvæmt umdeilanlegum álagningastuðlum hafi einnig orðið til þess að fyrirtæki hafi horfið úr miðbænum.

„Fasteignagjöldin hafa því líka spilað inn í það að veikja verslun og viðskipti í miðborginni. Fasteignagjöld eru vissulega þáttur sem maður heyrir að fyrirtæki horfi til því þessi skattur verður alltaf stærri og stærri hluti af rekstrarkostnaði með hækkunum á fasteignamati."

Enn sem komið er séu þó ekki mörg dæmi sem hægt sé að benda á um að fyrirtæki hafi beinlínis flutt sig um set milli sveitarfélaga vegna hárra fasteignagjalda. „En þetta spilar klárlega inn í þegar, sem dæmi, er verið að taka ákvörðun um staðsetningu fyrir nýjar höfuðstöðvar fyrirtækja," segir Ólafur.

Sex af tíu stærstu utan Reykjavíkur

Eftir brottflutning Icelandair úr Reykjavík verða fjögur af tíu stærstu fyrirtækjum landsins, samkvæmt nýlegum lista Frjálsrar verslunar yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins, með höfuðstöðvar í höfuðborginni - að því gefnu að ekkert af þessum tíu stærstu fyrirtækjum færi höfuðstöðvar sínar á næstu þremur árum. Umrædd fyrirtæki eru Eimskip, Landsbankinn, Össur og Arion banki. Fimm fyrirtækjanna, Icelandair, Marel, Hagar, Festi og Íslandsbanki, verða með höfuðstöðvar í Kópavogi, Hafnarfirði eða Garðabæ. Loks er Alcoa Fjarðaál svo staðsett á Reyðarfirði og verður að teljast ansi óliklegt að álverið flytji sig um set milli sveitarfélaga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér