Fasteignaverð í Bandaríkjunum lækkaði um 0,4% í janúar og hefur lækkað sjö mánuði í röð samkvæmt S&P CoreLogic Case-Shiller vísitölunni sem nær til verðs á íbúðarhúsnæði í tuttugu borgum í Bandaríkjunum.

Fasteignaverð hefur samkvæmt vísitölunni hækkað um 2,5% undanfarið ár en árshækkunin í desember nam 4,6%. Vísitalan á landsvísu lækkaði um 0,2% og lækkaði einnig sjöunda mánuðinn í röð. Hækkunin á landsvísu undanfarið ár nemur 3,8%.

Hækkandi vextir á íbúðalánum hafa líkt og víða um heim kælt fasteignamarkaðinn. Meðalvextir á algengum 30 ára fasteignalánum í Bandaríkjunum fóru lægst undir 2% í heimsfaraldrinum en eru nú um og yfir 6%.