Það hefur nóg verið fjallað um þrengingar fjölmiðla undanfarna mánuði og misseri, en ólíkt öðrum greinum tókst þeim aldrei að rétta almennilega úr kútnum eftir hrunið 2008. Nú birta miðlarnir fæstir mikið úr eigin bókhaldi, svo ekki hefur það allt verið vel sýnilegt. En það hefur verið gerð grein fyrir hallarekstri og hlutafjáraukningu, svo það má gera sér nokkra grein fyrir stöðunni. Kannski má þó ekki síður lesa það úr tölfræði um fjölmiðlaneyslu, sem Gallup og fleiri hafa tekið saman, og öðru hverju er sagt frá í dálkinum Tölfræði fjölmiðla hér neðst á síðunni. Hið sama endurspeglast í tölum um auglýsingaútgjöld til íslenskra fjölmiðla, þó þær séu ótíðari og ekki nákvæmar um það sem kemur í hlut hvers miðils.

Loks má svo nefna sjálfa fréttaframleiðsluna, sem stundum er vikið að hér á síðunni, það er að segja fjölda þeirra frétta, sem fluttar eru á hverjum miðli eða í heildina. Þar hefur verulegur samdráttur orðið, þó erfitt sé að henda nákvæmar reiður á, því bæði er talsvert um endurbirtingar milli systurmiðla (hefðbundinna og netmiðla), en svo er fréttaflokkurinn endurbirtingar fréttatilkynninga orðinn mun fyrirferðarmeiri en áður, ekki þá síst á tilkynningum af hinum ótal vefjum stjórnsýslunnar. Það kunna að felast fréttir í þeim, en það eru ekki eiginlegar fréttir, heldur endurbirtingar.

* * *

Fjölmiðlarýni flaug þetta í hug þegar hann fletti Fréttablaðinu á þriðjudag. Í því voru fjórar fréttasíður að forsíðunni meðtalinni. Alls þrettán fréttir. Þar af tvær um Bítilinn Ringo Starr áttræðan (heill honum!). Fjórar skrifaðar upp úr fréttatilkynningum hins opinbera. Tvær af erlendum vettvangi. Þá eru eftir í blaðinu fimm eiginlegar fréttir, misfréttnæmar eins og gengur.

Það er átakanlega lítið í útbreiddasta dagblaði landsins, sem í þokkabót kallar sig Fréttablaðið. Jú, það mátti fleira finna í blaðinu, sem alls var 48 síður. Ein og hálf skoðanasíða, ein og hálf undir íþróttir, fjórar undir mannlífsefni, tvær undir dægradvöl og dagskrá, 12 síðna bílablað og tíu fasteignasíður, 4 smáauglýsingasíður og um 9 auglýsingasíður. Frekar er það nú allt rýrt í roðinu.

Morgunblaðið sama dag var minna, 32 síður, en samt meira. Í því voru tíu fréttasíður, en fréttirnar 29 talsins, meira en tvöfalt fleiri en í Fréttablaðinu. 2-3 þeirra áttu uppruna að rekja til tilkynninga, fjórar voru erlendar (þar af ein um Ringo!)

Auk fréttasíðna voru í Mogga fjórar skoðanasíður, sex mannlífssíður (rúmar þrjár undir minningargreinar), tvær menningarsíður, tvær undir dagskrá og dægradvöl og tvær undir íþróttir, en um 10-12 auglýsingasíður.

* * *

Dagblöðin eru auðvitað ekki ein um hituna, DV, Mannlíf og Viðskiptablaðið koma út vikulega og Stundin hálfsmánaðarlega. Síðasta DV var 40 síður, en þrátt fyrir að þar hafi verið ýmislegt forvitnilegt helgar- og mannlífsefni, þá voru þar engar eiginlegar fréttir, en hins vegar þrjár síður undir tvær fréttaskýringar.

Mannlíf er raunar í útgáfuhléi a.m.k. fram í ágúst, en ef litið er til síðasta tölublaðs frá liðnum mánuði, þá var það 48 síður, nær allt helgar- og mannlífsefni, þó sumt megi segja fréttatengt. Eiginlegar fréttir engar, en hins vegar tvær síður með sitt hvorri fréttaskýringunni.

Viðskiptablaðið var 32 síður í liðinni viku, þar af sjö fréttasíður með 17 fréttum, auk opnufréttaviðtals, en síðan má einnig nefna mannlífsefni í síðari hluta blaðsins, sem er mjög fréttatengt, aðallega þá varðandi ráðningar stjórnenda í atvinnulífi.

Stundin er nokkuð ólík þessum blöðum, en þar sem hún kemur aðeins hálfsmánaðarlega út þarf hún að nálgast fréttir með öðrum hætti, annars vegar með eigin fréttamálum og hins vegar fréttaskýringum, hvort tveggja oft meiri málflutningsblaðamennska en eiginlegar fréttir og ekkert að því. Síðasta Stundin var 72 síður, en segja má að 12-16 þeirra séu með fréttum eða fréttatengdri umfjöllun, þó sumt sé á jaðri skoðanagreina eða mannlífsefnis.

* * *

Auðvitað eru dagblöðin tvö ólík að eðli og efnistökum. Annað er fríblað en hitt áskriftarblað. Fréttablaðið á allt sitt undir auglýsendum, en Morgunblaðið þarf að gæta jafnvægis milli þarfa auglýsenda og áskrifenda. Svo er dagsformið misjafnt og dagarnir mismunandi, suma daga er bílablað í öðru en ekki hinu, aðra daga meira lagt upp úr fasteignaauglýsingum hér en þar.

Loks má ekki heldur gleyma því að nú er hásumar, bæði fréttir og fréttalestur með minna móti en endranær. Það er þó eins og með sjávarföllin, að þau lyfta öllum bátum jafnt, svo þó svo að blöðin séu í þynnra lagi þá segja hlutföllin heilmikla sögu.

Hin blöðin eru einnig harla ólík. Viðskiptablaðið sinnir fréttaflutningi og þjóðmálaumræðu vel, en miðast mjög við lesendur í atvinnulífi og viðskiptum. Stundin sinnir sinni sókn líka vel, bæði hvað varðar fréttir og ekki þó síður skoðanaskrif, sem urmull er af í blaðinu. DV og Mannlíf eru bæði fjörleg og fjölbreytt blöð, einkum á sviði afþreyingar og almenns efnis, en hins vegar bæta þau sáralitlu ef nokkru við eiginlegan fréttaflutning eða þjóðmálaumræðu í landinu.

* * *

Það er þessi sláandi munur í fréttaflutningi, sem er umhugsunarverður. Fjölmiðlar hafa margvíslegan tilgang, til fréttaflutnings, almennrar upplýsingar, þjóðmálaumræðu, í miðlun viðskiptaupplýsinga (með auglýsingum, sem eiga brýnt erindi við neytendur), þjónustuupplýsingum, dægradvöl, viðtölum og mannlífsstemningum. Það er á alla lund og augljóslega áhugi á öllu; annars væri það ekki birt.

Þegar rætt er um rekstrarvanda fjölmiðla, ekki síst þegar verið er að bollaleggja opinberan stuðning við þá, blasir við að þar er vísað til hins sérstaka lýðræðislega hlutverks þeirra, hvað varðar fréttaflutning og þjóðmálaumræðu. Afþreyingarefnið er annars eðlis og lýðræðislegu þjóðfélagi í engu hætt þó það detti upp fyrir.

En þá hlýtur að þurfa einhver viðmið um raunverulegt framlag fjölmiðla til fréttaflutnings og þjóðmálaumræðu, og eins að þar sé um raunverulegan fréttaflutning að ræða, ekki aðeins endurbirtingar á fréttatilkynningum. Eða þætti skattgreiðendum eðlilegt ef Krossgátublaðið bætti við tveimur fréttasíðum auk leiðara ritstjóra um landsins gagn og nauðsynjar og ætti þar með kröfu á styrk úr sameiginlegum sjóðum í nafni lýðræðislegrar og lífvænlegrar fjölmiðlunar?