Fundur fulltrúa Seðlabankans og forsætisráðherra og utanríkisráðherra í febrúar síðastliðnum snerist að stærstum hluta um möguleika íslenska ríkisins til að taka lán og hvernig erlendir bankar mætu stöðuna á þeim tíma.

Þetta kom fram í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra á Alþingi í dag.

„Niðurstaðan úr þeim viðræðum var sú að markaðsaðstæður væru með þeim hætti að ekki væri heppilegt og hugsanlega ekki mögulegt fyrir íslenska ríkið að reyna fyrir sér á alþjóðlegum lánamarkaði á þeim tíma," sagði Geir í umræðum, sem nú fara fram á Alþingi, um eflingu gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.

Febrúarskýrslan lesin á fundinum

Með febrúarfundinum er hann að vísa til fundar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri vitnaði til í frægri ræðu sinni á fundi Viðskiptaráðs nýverið.

Davíð sagði þar að fulltrúar Seðlabankans hefðu átt fund í London á fyrri helmingi febrúarmánaðar á þessu ári, með háttsettum mönnum í fjölmörgum stærstu bönkunum, sem mest áttu viðskipti við Ísland og íslensk fyrirtæki.

Davíð sagði að þegar heim hefði verið komið hefði verið óskað eftir fundi með forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna. Á þeim fundi hefði verið lesin upp í heild skýrsla um ferðina.

Í henni hefði m.a. komið fram að fyrirferð íslenskra banka í fjármálalífi Íslendinga væri slík að yrði þeim hált á svelli dyttu aðrir með þeim.

Fengust ekki viðunandi kjör

Geir sagði síðar í umræðunum á Alþingi í dag að það hefði verið tekið erlent lán fyrr á árinu, til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans, ef það hefðu fengist viðunandi kjör. Því hefði hins vegar ekki verið að heilsa.

Þá kvaðst hann aðspurður efast um að grundvöllur hefði verið fyrir því að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr á árinu.

(Fréttin var uppfærð kl. 14.30).