Íslenskir flugfarþegar sem ekki komast fyrir í einu flugsæti þurfa ekki að borga sérstaklega fyrir annað sæti við innritun. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu sem leitaði svara við þessu á flugfélögunum Wow air, Icelandair og Flugfélagi Íslands.

„Þetta kemur stundum til tals. Þegar þetta gerist er reynt að finna viðkomandi sæti þar sem er laust við hliðina. Þegar vélin er alveg sneisafull þá er fólk sett í gangsæti,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Fréttablaðið.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, segir í samtali við Fréttablaðið að flugfélagið leysi vandamálið með framlengingu á belti. Hingað til hafi þessi mál verið leyst farsællega um borð.