Einkahlutafélagið AB 161 ehf var tekið til gjaldþrotaskipta á miðvikudag í síðustu viku, 21. nóvember, í Héraðsdómi Reykjavíkur. Félagið hét áður Geirmundartindur og hélt utan um 171 milljóna króna lán sem Elmar Svavarsson fékk hjá Glitni til kaupa á hlutabréfum í bankanum í maí árið 2008. Hann var á þeim tíma forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans. Innan við hálfu ári síðar var bankinn farinn í þrot og hlutabréfin orðin verðlaus.

Þegar lánið var veitt á sínum tíma fengu 16 starfsmenn Glitnis samtals 8,5 milljarða að láni til hlutabréfakaupa hjá bankanum.

Allt í erlendri mynt

Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Geirmundartinda fyrir uppgjörsárið 2009 kemur fram að félagið tapaði 28 milljónum króna. Það bættist við 249 milljóna króna tap árið 2008. Eignir námu á sama tíma 23,1 milljón króna. Skuldir Geirmundartindar, sem voru í erlendri mynt, voru í lok árs komnar í 299,6 milljónir króna og var eigið fé félagsins því neikvætt um 276,5 milljónir. Lán Geirmundartindar voru á gjalddaga á þessu ári.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu að skiptastjóri hafi tekið við þrotabúinu. Hann hefur kallað eftir kröfum í búið og boðað til skiptafundar 5. mars á næsta ári.

Sérstakur saksóknari hefur rannsakað mál sem Elmar tengist og fór fram á gæsluvarðhald yfir honum í nóvember í fyrra vegna tengsla hans við rannsókn á lánveitingum og hlutabréfaviðskiptum Glitnis í viðskiptum tengdum FL Group og félaginu Stím. Þrír fyrrverandi starfsmenn Glitnis voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald en kröfunni um varðhald yfir Elmari var hafnað.