Eitt eignarhaldsfélaga Roberts Kiyosaki hefur óskað eftir því að vera tekið til gjaldþrotaskipta eftir að félagið var dæmt til að greiða tæpar 24 milljónir dala vegna vanefnda á samningi. Málið er áhugavert í ljósi þess að Kiyosaki hefur öðlast heimsfrægð fyrir sjálfshjálparbók sína Ríki pabbi, fátæki pabbi (e. Rich Dad Poor Dad). Bókinni er ætlað að hjálpa fólki að öðlast efnahagslegt sjálfstæði í gegnum fjárfestingar og fleiri leiðir.

Félaginu Rich Global var gert að greiða Learning Annex hluta af bóksöluhagnaðinum vegna vinnu sem LA hafði unnið við kynningu á Kiyasaki og bókinni. Í frétt New York Post er haft eftir Mike Sullivan, forstjóra annars fyrirtækis Kiyosaki, Rich Dad Co., að því miður sé svo lítið fé í Rich Global að ómögulegt sé að greiða skuldina, þrátt fyrir að Kiyosaki eigi sjálfur um 80 milljónir dala.