Woodward Foodservice, félag sem er að hluta í eigu Baugs, hefur samþykkt að kaupa keppinautinn DBC Foodservice, samkvæmt upplýsingum frá Baugi.

"Með sameiningu fyrirtækjanna myndast góður grundvöllur fyrir frekari vexti og aukinni þjónustu við nýja og núverandi viðskiptavini," segir forstjóri Woodward Foodservice, Ed Hyslop.

Velta sameinaðs félags verður um 500 milljónir punda, sem samsvarar rúmlega 65 milljörðum íslenskra króna, segir Baugur. Eftir kaupin verður Woodward Foodservice þriðja stærsta matvæladreifingarfyrirtækið í Bretlandi.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp, en velta félagsins á ársgrundvelli nemur 200 milljónum punda.

Baugur og breska félagið Talden studdu við kaup stjórnenda á Woodward Foodservice í ágúst í fyrra, en félagið var hluti af Giant Bidco, sem stofnað var til að taka yfir The Big Food Group, sem meðal annars átti Iceland-verslunarkeðjuna.

Kaupin eru fjámögnuð af breska bankanum Lloyds TSB og Landsbanka Íslands.