Félagið Joco hefur flutt 200 milljónir króna inn í landið í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Félagið er í eigu Jóns Ólafssonar, sem löngum hefur verið kenndur við Skífuna en hefur einbeitt sér að útflutningi á átöppuðu vatni undir merkjum Icelandic Glacial síðustu árin.

Joco hefur komið með um hálfan milljarð króna inn í land eftir þessari leið bankans á um ári en hefur heimild fyrir allt að einum milljarði króna. Félagið á m.a. snyrtiakademíuna Reykjavik Fashion Academy og fleira tengt. Jón segir í samtali við Viðskiptablaðið peningana öðru fremur fara til reksturs akademíunnar og uppbyggingu hennar.