THSV ehf., félag í eigu Þórarins Sveinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra eignastýringar Kaupþings, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Eiginfjárstaða félagsins var neikvæð um tæpan einn milljarð króna í árslok 2008 en það átti 500 þúsund hluti í Kaupþingi sem urðu verðlausir með yfirtöku FME á starfsemi bankans árið 2008.

Langtímaskuldir félagsins, sem voru allar í erlendri mynt, voru á gjalddaga í ár. Fram kemur í ársreikningi fyrir árið 2008 að " ... til tryggingar á öllum skuldum og skuldbindingum gagnvart Kaupþingi banka hf. sem námu í árslok 2008 um 1.008 millj. kr. eru hlutir í Kaupþingi banka alls 500.000 hlutir að handveði, auk þess eru að handveði hlutir eiganda félagsins alls 1.482.929 hlutir."