Einkahlutafélagið Skel Investments hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Eigandi félagsins, einkahlutafélagið AB 190 ehf, hefur sömuleiðis verið úrskurðað gjaldþrota. Félögin voru í eigu þeirra Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Arnar Þórðarsonar. Það keypti árið 2008 51% hlut Miðengis, dótturfélags Íslandsbanka, í Skeljungi en það sem út af stóð árið 2010. Svanhildur Nanna var stjórnarformaður Skeljungs.

Skel Investments átti um tíma 51% hlut í Skeljungi. Hann minnkaði við frekari kaup Skeljungs og sameiningu félaga og var þegar yfir lauk kominn niður í rúm 30%.

Eigendur Skeljungs seldu fyrirtækið hópi fjárfesta um síðustu áramót til Framtakssjóðsins SÍA II, sjóðs í rekstri Stefnis, dótturfélags Arion banka. Kaupverðið var um átta milljarðar króna. Helstu eigendur sjóðsins eru lífeyrissjóðir.

Fram kemur í síðasta uppgjöri Skel Investments fyrir árið 2012 að félagið tapaði rúmum 1,2 milljörðum króna. Það bættist við rúmlega 319 milljóna króna tap árið 2010. Eignir félagsins námu á sama tíma rúmum 1,8 milljörðum króna en skuldir upp á rúma 2,7 milljarða. Eigið fé félagsins var neikvætt um rúmar 870 milljónir. Í ársreikningnum segir að eignarhlutir voru veðsettir til tryggingar skuldum við Íslandsbanka upp á 2.656 milljónir króna.