Títan fjárfestingarfélag tapaði 135,7 milljónum krónum í fyrra. Þetta bætist við tæplega 44,5 milljóna króna tap félagsins árið 2010. Títan er í eigu fjárfestisins Skúga Mogensen. Í eigu þess er m.a. stórir eignahlutir í MP banka, flugfélaginu Wow air, Carbon Recycling International og Advania, áður Skýrr.

Fastafjármunir félagsins eru skráðir á rúma 1,3 milljarða króna í ársreikningi samanborið við tæpa 1,2 milljarða árið 2010. Eignir nema jafnframt rúmum 1,3 milljörðum króna um áramótin. Skuldir námu rúmum 1,4 milljörðum króna en þær voru rúmur 1,1 milljarður í lok árs 2010. Eigið fé Títan fjárfestingarfélags var í lok síðasta árs neikvætt um 101,8 milljónir króna en það var jákvætt um 35 milljónir ári fyrr.

Á 7,5 milljarða

Til marks um snarpan gang félagsins má nefna að það hóf rekstur árið 2008 og átti þá engar eignir ef frá er skilin hálf milljón króna á bankareikningi. Árið síðan námu eignir félagsins rétt tæpum 260 milljónum króna. Þar af átti félagið 21 milljón króna í sjóðum og bankainnstæðum.

Í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, í dag kemur fram að skuldir Títans fjárfestingarfélags, séu við hann sjálfan eða félög í hans eigu.

Skúli og aðrir honum tengdum seldu tæknifyrirtækið Oz til Nokia síðla árs 2008. Ekki hefur verið greint frá kaupverðinu. Í Viðskiptablaðinu fyrir skömmu kom fram að Skúli og kona hans hafi greitt um 150 milljónir króna í auðlegðar- og viðbótarskatt vegna síðasta árs. Hrein eign þeirra nemi því samkvæmt 7,5 milljörðum króna.