Um það bil átta þúsund notaðir bílar eru til sölu hér á landi og um fimm þúsund nýir bílar standa óhreyfðir niðri á bryggju, að sögn Özurar Lárussonar, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins. Sigríður Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, viðraði þá hugmynd á Alþingi í vikunni að stjórnvöld beittu sér fyrir því að veitt yrði heimild til endurgreiðslu vörugjalda og virðisaukaskatts af nýlegum bílum svo hagkvæmt yrði fyrir eigendur þeirra að flytja þá aftur úr landi og selja þá þar. Bílgreinasambandið hefur mælt fyrir slíkri hugmynd á undanförnum árum. Geir H. Haarde forsætisráðherra tók hugmyndinni vel á Alþingi.

„Ég tel að [þingmaðurinn] hafi bent hér á raunverulegt vandamál sem full ástæða er til að reyna að leysa. Þegar efnahagsaðstæður breytast jafnskjótt og nú hefur orðið er ljóst að ýmsar ákvarðanir sem teknar hafa verið, til dæmis um innflutning á bifreiðum, hafa ekki reynst raunhæfar miðað við nýtt ástand.“

Bílar grotna niður ef ekki verður hægt að selja þá út

Sigríður segir í samtali við Viðskiptablaðið að í lok síðasta árs hafi um 190 þúsund ökuskírteini verið í gildi hér á landi. Á sama tíma hafi um 207 þúsund bílar verið í bílaflota landsmanna. Hún segir að bilið hafi örugglega breikkað síðan þá, þ.e.a.s. enn fleiri bílar séu á hvert ökuskírteini. „Bílafloti landsmanna er gríðarlega mikill og þar af eru margir nýir og verðmætir bílar.“ Í ljósi þess að ekki sé neinn markaður fyrir notaða og nýja bíla hér á landi, um þessar mundir, hafi bílaeigendur gripið til þess ráðs að taka númer af bílum til að spara sér reksturinn.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .