Félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands felldu í dag nýgerðan kjarasamning sem félagið gerði við Samtök atvinnulífsins (SA). Ríflega 70% blaðamanna greiddu atkvæði gegn samningnum. Þetta var tilkynnt fyrir skömmu.

Alls voru 380 á kjörskrá og greiddu 147 atkvæði. 36 greiddu atkvæði með honum, eða tæplega fjórðungur, en 105 greiddu atkvæði gegn honum. Auðir og ógildir seðlar voru sex.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, sagði í fréttum Rásar 2 að niðurstaðan hefði ekki komið sér á óvart. Með henni væru blaðamenn að senda skýr skilaboð. Viðbúið er að aðilar setjist að samningaborðinu á ný á morgun eða hinn.

Verkfall sem fyrirhugað var í síðustu viku mun að óbreyttu fara fram næsta föstudag en þá munu félagsmenn í BÍ, sem starfa hjá RÚV, miðlum Sýnar, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, leggja niður störf frá 10-22. Allsherjarvinnustöðvun, bæði á prent- og netmiðlum, er fyrirhuguð á sömu stöðum á fimmtudaginn í næstu viku.