Guðni Rúnar Jónasson, ráðskona í Femínistafélaginu, segir stjórn félagsins ekki andsnúna áfengisfrumvarpi Vilhjálms Árnasonar. Félagið lýsir þó ekki yfir sérstökum stuðningi með því. Fulltrúar Femínistafélagsins funduðu með allsherjar- og menntamálanefnd eftir að velferðarnefnd kallaði eftir afstöðu þess í umsögn sinni um frumvarpið.

„Okkar niðurstaða er sú að við getum ekki mælt gegn frumvarpinu né mælt með því. Á þeim forsendum sem við vorum beðin um að veita umsögn getum við ekki tekið beina afstöðu því það er erfitt að sjá að þetta sé kvennapólitískt mál," segir Guðni.

Einkasala ríkisins ekki jafnréttismál

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að afnám einkasölu ríkisins á áfengi væri sérstakt jafnréttismál. „Aukið aðgengi leiðir til aukinnar neyslu og leiðir meðal annars til aukins ofbeldis, þar með heimilisofbeldis. Þannig að við teljum þetta jafnréttismál," segir Sigríður.

Guðni segist ekki átta sig fyllilega á því hvers vegna kallað hafi verið eftir umsögnum félagsins og annarra kvenréttindahreyfinga og kveðst ósammála því að afnám einkasölu ríkisins á áfengi sé jafnréttismál. Ósk meirihluta velferðarnefndar um umsögn hafi því komið nokkuð flatt upp á sig. „Rannsóknir sýna það að aukin neysla leiði til aukins ofbeldis almennt, en það að það þurfi þá að setja lög um neysluna og herða aðgengi sjáum við ekki sem svarið," segir Guðni.

Nærtækara væri að horfa til annarrar löggjafar sem varði heimilisofbeldi beint, eins og hegningarlög, sem séu gölluð að hans mati. „Svarið við þeim göllum er ekki endilega önnur lagasetning," segir Guðni.

Samfélagið breyst seinustu áratugi

„Að okkar mati hafa orðið gífurlegar breytingar á því hvernig samfélagi við búum í, frá þeim tíma þegar konur voru hvað mest að berjast gegn áfengisneyslu. Fyrir 100 árum var verið að koma á áfengisbanni víða um heim og konur voru leiðandi í þessari baráttu og þaðan kemur þessi góðtemplara hugmyndafræði."

Guðni bendir einnig á að sér þyki hjákátlegt þegar talað sé sérstaklega um að áfengisneysla meðal kvenna hafi aukist. „Eins og það eigi að gilda einhver önnur lögmál um það og þegar karlar drekka og að þær megi ekki taka það val," segir Guðni.

Færir ábyrgðina frá gerendum

Guðni segir að tilraunir til neyslustýringar á áfengi kunni að færa ábyrgð frá gerendum heimilisofbeldis. „Persónulega finnst mér einn mikilvægasti punkturinn hvað varðar þá röksemd að áfengi sé sérstaklega tengt heimilisofbeldi að þá megi það ekki vera notað á þann máta að það taki ábyrgðina frá gerandanum, sem ber alltaf ábyrgðina. Við vitum til þess að samkvæmt rannsóknum drekka gerendur sig upp í að stunda heimilisofbeldi," segir hann.

Hann segir persónulega skoðun sína vera þá að afnema eigi einkasölu ríkisins á áfengi. Byggi hann þá skoðun einkum á því að hann hafi búið erlendis og þótt annarskonar fyrirkomulag betra. „Ég hef ekkert á móti því að sjá þetta í verslunum. En eins og ég segi, við tekur félagið ekki beina afstöðu til frumvarpsins," segir Guðni.