Breski bankinn Barclays hefur veitt ellefu æðstu stjórnendum sínum samtals 16,5 milljóna punda kaupauka í formi hlutabréfa í bankanum. Fjárhæðin jafngildir 3,4 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá málinu.

Fjárhæðin nemur helmingi þeirrar fjárhæðar sem stjórnendur bankans fengu í kaupauka á síðasta ári, en þá nam hún 32 milljónum punda. Tom King, forstjóri fjárfestingastarfsemi bankans, fékk stærsta hlutinn og er hann metinn á 4,7 milljónir punda.

Bankinn hefur legið undir mikilli gagnrýni að undanförnu vegna launamála og bónusgreiðslna, sem mörgum þykir of rausnarlegar. Hefur þess þannig verið krafist að John Sunderland, formaður kjaranefndar stjórnar bankans, segi af sér fyrir aðalfund sem haldinn verður í apríl næstkomandi.