Þau Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson greiddu sér 2,6 milljarða króna út úr eignarhaldsfélaginu Heddu í kjölfar kaupa framtakssjóðsins SÍA II á Skeljungi og tengdum eignum. Félagið Hedda hélt utan um eignarhald á 25% hlut í Skeljungi og 66% hlut í færeyska olíufélaginu Magn.

Fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins um málið í dag að ákveðið hafi verið á hluthafafundi 22. janúar síðastliðinn að lækka hlutafé Heddu um 72,93 milljónir með greiðslu til hluthafa á genginu 36,26, sem jafngildir 2,64 milljörðum króna. Engar skuldir voru því til fyrirstöðu að hlutafjárlækkunin gæti farið fram. Félagið Hedda er í 100% eigu Guðmundar.

Framtakssjóðurinn SÍA II er í rekstri hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka. Helstu hluthafar sameinaðs félags eru meðal annars SÍA II (25,84%), Arion banki (12,92%) og Gildi lífeyrissjóður (9,3%). Ýmsir lífeyrissjóðir eiga svo beint og óbeint samtals í kringum 50% hlut í félögunum. Nýir eigendur félaganna greiddu samtals átta milljarða króna fyrir þau, ríflega fjóra fyrir Skeljung og 3,9 fyrir P/F Magn.