Forsætisráðuneytið greiddi samtals um 89,2 milljónir króna fyrir sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarstörf á tímabilinu frá ársbyrjun 2014 til loka októbermánaðar í ár.

Hæstu einstöku greiðslurnar eru til félaganna Meltúns ehf., sem fékk 9,1 milljón króna fyrir vinnu fyrir ráðgjafahóp um afnám hafta, og til G 47 ehf. fyrir ráðgjöf á sviði upplýsingamála.

Meltún er í eigu Eiríks Svavarssonar lögmanns og G 47 ehf. er í eigu Hrannars Péturssonar, sem ráðinn var til að stýra endurskoðun á stefnu Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum. Hætti hann störfum þar í október á þesus ári.

Önnur félög, sem fengu greiðslur frá ráðuneytinu voru meðal annars Stafnasel slf. sem fékk rúmar 6,7 milljónir fyrir verkefni vegna verðtryggingarmála, og Framlag ehf. sem fékk 6,3 milljónir króna vegna vinnu fyrir ráðgjafahóp um afnám hafta. Stafnasel er að langstærstu leyti í eigu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar og Framlag er í eigu Jóns Helga Egilssonar, sem situr í stjórn Seðlabankans.