Stjórnvöld í Íran opnuðu tímabundið á mánudagskvöld fyrir aðgang nettengdra landsmanna að samskiptamiðlunum Facebook og Twitter. Lokað var fyrir miðlana í Íran árið 2009 til að koma í veg fyrir að landsmenn gætu skipulagt andstöðu gegn stjórnvöldum.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir að í fyrstu hafi verið talið að stjórnvöld hafi orðið blíðari á manninn en áður og ákveðið að gefa landsmönnum færi á að nýta sér tækni sem allir nettengdir einstaklingar í hinum frjálsa heimi geta notað. Sú var hins vegar ekki raunin enda greindu stjórnvöld frá því að tæknibilun hafa komið upp sem hafi valdið því að Íranir gátu til skamms tíma notað samskiptamiðlana.

BBC segir blaðamenn frá vesturlöndum hafa greint frá því að þeir hafi komist á miðlana og ekki þurft að nota hjáleiðir til að komast fram hjá hindrunum hins opinbera.