BMI publications, sem gefa m.a. út blöðin Selling Short Breaks & holidays og Selling Long haul fyrir sölufólk, veita árlega verðlaun í nokkrum flokkum til aðila í ferðaþjónustu.

Ferðamálastofa hefur verið valin best í flokknum “Tourist Office offering best assistance to agents for Scandinavia & and the Baltics 2007” Það er sölufólk á ferðaskrifstofum og sjálfstæðir söluaðilar sem sendir inn tilnefningarnar og í ár var slegið met í þátttöku eða um 14.000 samtals. Tæmandi listi yfir alla sem fengu verðlaun verður birtur í Selling short Breaks & holidays og Selling Long Haul í desember næst komandi. Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálastofu fyrir Bretland, segir vissulega ánægjulegt að fá viðurkenningu sem þessa fyrir það starf sem unnið er á markaðinum. Jafnframt sé auglýsingagildið umtalsvert þar sem BMI publications auglýsi verðlaunin rækilega í sínum miðlum.

Þess má geta að Icelandair fengu þessi verðlaun í fyrra sem Best Airline to Scandinavia.