Icelandair ráðgerði um 500 flugferðir á milli Bandaríkjanna og Íslands á meðan boðað 30 ferðabann Donald Trump Bandaríkjaforseta verður í gildi samkvæmt flugáætlun Isavia. Bannið á að taka gildi á morgun, föstudag.

Alls hafði Icelandair tilkynnt um tæplega 1.900 áætlunarflug til og frá landinu á tímabilinu en flug til og frá Bandaríkjunum eru 27% af þeim flugferðum.

Í febrúar flutti Icelandair 57 þúsund tengifarþega, sem voru á leið yfir Atlantshafið, á milli Norður-Ameríku og Evrópu, en millilentu á Íslandi. Það voru 25% af öllum farþegum Icelandair í febrúar.

Icelandair tilkynnti í síðustu vika að 2% flugferða félagsins í mars og apríl yrðu felldar niður vegna, sem áttu að telja alls 3.500, vegna minnkandi eftirspurnar eftir flugferðum í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar. Félagið gaf út í byrjun vikunnar að líklega þyrfti að fella niður fleiri flug og að endurskoðun á flugáætlun félagsins stæði yfir. Þá var haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair Group í vikunni að líkur væru á uppsögnum hjá félaginu.

Hlutabréfaverð í félaginu hafði við lokun markaða í gær lækkað um 41% síðastliðinn mánuð. Icelandair hafði þegar fellt afkomuspá sína fyrir árið úr gildi. Icelandair var rekið með 7 milljarða króna tapi bæði árin 2018 og 2019 en kyrrsetning 737 MAX flugvélanna olli félaginu miklu tjóni á síðasta ári.

Bandaríkjamönnum hleypt inn í landið

Ekki var fyllilega skýrt hvað fælist í banninu í sjónvarpsávarpi Trump í nótt. Þar kom fram að bannið næði einnig yfir vöruflutninga en hann tilkynnti svo á Twitter í nótt að flutningar með vörur væru ekki hluti af banninu.

Þá skýrði yfirlýsing Heimavarnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna stöðuna að hluta. Samkvæmt henni á bannið á að ná til allra erlendra ríkisborgara sem voru á Schengen svæðinu, þar með talið Íslandi, síðustu 14 daga fyrir komu til Bandaríkjanna. Áfram á að hleypa bandarískum ríkisborgurum og fjölskyldum þeirra til Bandaríkjanna sem og þeim sem hafa þeir löglega skráða varanlega búsetu. Bretland er ekki hluti af banninu.