Verkföllin eru þegar farin að hafa talsverð áhrif á aðsókn ferðamanna til landsins. Fjölmörg dæmi eru um að ferðahópar hafi hætt við að koma hingað og hægt hefur á bókunum ferðamanna. Kemur þetta fram í frétt Ríkisútvarpsins .

Þar er m.a. vitnað í Facebook færslu Steinars Sveinssonar leiðsögumanns um að níutíu manna hópur sem hann átti að vinna með hafi hætt við vegna yfirvofandi verkfalls.

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að það hafi dregið úr áhuga ferðamanna á Íslandi. „Það hafa komið fjölmörg dæmi um að hópar hafa verið að afboða komu sína til Íslands út af þessum aðgerðum sem voru fyrr í mánuðinum og ekki síður yfir fyrirhuguðum aðgerðum,“ segir Skapti.