*

laugardagur, 23. janúar 2021
Innlent 15. ágúst 2020 15:51

Ferðamenn lagt til 8 milljarða í sumar

Þjóðarbúið getur orðið af allt að 24 milljörðum til ársloka vegna minni ferðaþjónustu í kjölfar hertra aðgerða.

Ritstjórn
Tómlegra er um að litast í miðbænum í sumar en verið hefur síðustu ár vegna færri ferðamanna.
Haraldur Guðjónsson

„Efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli,“ að því er segir í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærunum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær munu nýjar reglur taka við á landamærunum á miðvikudaginn komandi þar sem allir sem koma til landsins munu á ný þurfa að fara í skimum við Covid 19 veirufaraldrinum, auk þess að sæta 5 daga sóttkví áður en farið er í skimun á ný.

Í minnisblaðinu er jafnframt vísað í ýmis konar óefnislegan kostnað af sóttvörnum, en bent á að miðað við fjölda ferðamanna hingað til lands í júlímánuði muni þjóðarbúið verða af allt að 24 milljörðum króna vegna harðari sóttvarnarreglna út árið.

Samfélagslegri kostnaðurinn hærri en ábati þjóðarbúsins

Hins vegar er vísað til bandarískrar rannsóknar þar sem fram kemur að samfélagslegur kostnaður af hverju Covid 19 smiti ætti að nema um 40 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi, en jafnframt sé kostnaður af óttanum við smit og sóttvarnarráðstafana.

Því er kostnaður sé af almennum sóttvarnaraðgerðum, það er samkomubanni, sagður meiri en af sértækari aðgerðum eins og smitrakningu og sóttkví, þar sem fá smit, jafnvel aðeins eitt geti haft með sér mikinn kostnað.

„Þannig eru um 700 manns í sóttkví þegar þetta er skrifað og stór hluti þeirra vegna smita sem líklega má rekja til eins smitaðs einstaklings sem kom til landsins. Kostnaður samfélagsins vegna þeirra sóttkvía sem hefur þurft að beita í sumar hleypur líklega á hundruðum milljóna króna,“ segir í minnisblaðinu og bent á að fjöldi smita geti vaxið með veldisvexti.

Miðað við þessar tölur má áætla að samfélagslegi kostnaðurinn af þeim fjölda sem nú er í sóttkví um 28 milljarðar þó sú tala komi ekki fram í minnisblaðinu. Á móti er vísað til þess að innlend eftirspurn hafi tekið hraðar við sér í sumar þegar minni hætta þótti á smiti hér á landi, en búist hafi verið við í fyrstu, og vísbendingar um að einkaneysla hafi verið sterkari á 2. ársfjórðungi en talið hafi verið.

„Í júní var kortavelta Íslendinga erlendis 9 mö.kr minni en í fyrra en innanlands var hún 13 mö.kr meiri,“ segir í minnisblaðinu um þetta tímabil, sem jafnframt er sögð hafa vegið á móti 23 milljarða króna samdrætti í veltu erlendra ferðamanna hér á landi í mánuðinum miðað við fyrra ár.

„Þegar faraldurinn stóð sem hæst var kortavelta Íslendinga innanlands um 10 milljörðum króna minni á mánuði en hún hefði verið án faraldursins eða sem samsvarar um 4% af landsframleiðslu hvers mánaðar. Í mörgum Evrópulöndum þar sem beitt var harðari aðgerðum en á Íslandi dróst landsframleiðsla saman um 10-20% á öðrum ársfjórðungi.“

Frá því að opnað var fyrir komur til landsins án sóttkvíar á ný 15. júní hafa um 70 þúsund ferðamenn komið til landsins auk 45 þúsund íslenskra ríkisborgara, en gert er ráð fyrir að framlag hvers ferðamanns til hagkerfisins geti legið á bilinu 100 til 120 þúsund upp úr þjóðhagsreikningum Hagstofunnar.

„Því má áætla að þeir ferðamenn sem hafa sótt landið heim undanfarna tæpa tvo mánuði hafi lagt um 8 ma.kr. til efnahagslífsins á þeim tíma, en júní, júlí og ágúst eru mikilvægustu mánuðirnir fyrir íslenska ferðaþjónustu. Til samanburðar getur útbreiðsla faraldursins ásamt hörðum sóttvarnaráðstöfunum dregið úr neyslu innlendra aðila um 10 ma.kr. á mánuði, líkt og greint er frá að framan,“ segir í minnisblaðinu og bent á að erlendra ferðamanna sem heimsækja landið það sem eftir lifir árs gæti legið á bilinu 165 til 200 þúsund.

„Reynist nauðsynlegt að beita harðari sóttvarnaráðstöfunum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar en draga verulega úr eða koma í veg fyrir komur ferðamanna gæti þjóðarbúið orðið af 20-24 mö.kr til ársloka vegna minni umsvifa í ferðaþjónustu. Þá störfuðu um 28 þúsund einstaklingar í einkennandi greinum ferðaþjónustu á síðasta ári, sem ætla má að verði fyrir beinum áhrifum af hörðum sóttvarnaaðgerðum.“