Um 45 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í apríl. Þetta er 8.000 fleiri ferðamenn en fóru frá landinu fyrir ári. Aukningin nemur 21,5% samkvæmt útreikningum Ferðamálastofu. Frá áramótum 167.902 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 42 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Þetta jafngildir 34% aukningu á milli ára.

Fram kemur í umfjöllun Ferðamálastofu að á síðastliðnum 12 árum, þ.e. frá 2002 til 2013 hafi ferðamönnum fjölgað að jafnaði um 9,4% á milli ára. Frá í apríl árið 2002 og fram í apríl á þessu ári hefur fjöldi ferðamanna farið úr 19 þúsund í um 45 þúsund.

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í apríl frá Bretlandi (25,1%). Ferðamenn frá Bandaríkjunum (13,1%), Noregi (9,2%), Þýskalandi (6,1%), Danmörku (6,0%) og Svíþjóð (5,8%). Samtals voru þessar sex þjóðir 65,3% ferðamanna í apríl. Af einstaka þjóðum fjölgaði Bretum og Bandaríkjamönnum mest milli ára í apríl. Þannig komu 3.053 fleiri Bretar en í fyrra og 1.540 fleiri Bandaríkjamenn.