*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 31. maí 2013 13:38

Ferðaþjónusta vill hafa flugvöll í Vatnsmýrinni

Samtök ferðaþjónustu mótmæla áætlunum borgaryfirvalda um lokun á flugbrautun og flutningi á Reykjavíkurflugvelli.

Ritstjórn

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) mótmæla ákvörðun borgaryfirvalda um flutning á Reykjavíkurflugvelli úr Vatnsmýrinni. Samtökin lýsa jafnframt furðu sinni á ákvörðun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að setja í drög að aðalskipulagi borgarinnar ákvörðun um að leggja af norður/suður brautina árið 2016. Þau segja flugrekendur, flugmálastjóri og aðrir þeir sem best þekkja til, líta svo á að þar með sé flugvöllurinn ónothæfur. SAF bendir á í tilkynningu að á sama tíma og unnið er að því að koma flugvellinum í burtu standi til að byggja flugstöð sem muni trúlega opna um svipað leyti og flugvöllurinn hrekst í burtu.

SAF vísar í tilkynningu til stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar þar sem lögð er áhersla á að flugvöllurinn verði í nálægð stjórnsýslunnar og skora samtökin á borgaryfirvöld að endurskoði afstöðu sína með tilliti til afleiðinga þess ef starfsemin verður flutt til Keflavíkur.  

SAF rifjar jafnramt upp að í skoðanakönnun sem gerð var af Capacent Gallup á meðal félagsmanna Samtaka ferðaþjónustunnar í september síðastliðnum kemur fram að 71% þeirra félagsmanna, sem tóku afstöðu vilji hafa höfuðstöðvar innanlandsflugsins í Reykjavík frekar en í Keflavík.