Rekja má minnkandi atvinnuleysi, styrkingu krónunnar og minni verðbólgu til uppgangs ferðaþjónustunnar í landinu. Greinin er að festa sig í sessi sem sú atvinnugrein sem skilar langmestum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið.

Fyrir tíu árum síðan báru sjávarútvegur og stóriðja höfuð og herðar yfir aðrar útflutningsgreinar. Ferðaþjónustan náði því varla að vera hálfdrættingur á við sjávarútveg þegar koma sköpun gjaldeyristekna. Óhætt er að segja að á undanförnum árum að hafi orðið bylting í ferðaþjónustu. Hagfræðideild Landsbankans gaf fyrir skömmu út skýrslu um ferðaþjónustuna, þar sem varpað er ljósi á vöxt greinarinnar, rekstur fyrirtækja og í skýrslunni er einnig lagt mat á framtíðarhorfur.

Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar nam 163 milljörðum árið 2010 og 193 milljörðum ári seinna. Árið 2013 varð ferðaþjónustan í fyrsta skiptið sú atvinnugrein sem skilaði mestum gjaldeyristekjum fyrir þjóðarbúið eða 277 milljörðum króna. Þar með tók greinin fram úr  sjávarútvegi og stóriðju og samkvæmt skýrslu Landsbankans er ekki útlit fyrir að þetta muni breytast á næstu árum.

430 milljarðar króna

Á síðasta ári nam útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar 303 milljörðum króna, samanborið við 241 milljarð í sjávarútvegi og 233 milljarða í stóriðju. Hagfræðideild Landsbankans telur að ferðaþjónustan muni skila 350 milljarða króna gjaldeyristekjum á þessu ári og 396 milljörðum á því næsta.

Gert er ráð fyrir því að árið 2017 muni ferðaþjónustan skila 430 milljarða króna gjaldeyristekjum eða 60% meiri tekjum en sjávarútvegur, sem talið er að muni skila 267 milljörðum í þjóðarbúið sama ár. Til að draga þetta saman þá spáir Landsbankinn því að gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar muni aukast um 42% á milli áranna 2014 og 2017.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .