Í júní árið 2012 voru farnar að jafnaði 40 áætlunarferðir frá Keflavík á dag. Í síðasta mánuði voru brottfarirnar hins vegar tæplega þriðjungi fleiri eða 51 að meðaltali á dag. Frá þessu er greint á vef Túrista . Í samanburði við júní á síðasta ári hefur ferðunum fjölgað um nærri fimmtungt.

Síðustu tvö ár buðu fimmtán flugfélög upp á áætlunarflug héðan í júní en í síðasta mánuði voru félögin nítján talsins. Samkvæmt Túrista skýrir fjölgunin þó að litlu leyti þá aukningu sem orðið hefur á tíðni ferða. Aðalástæðan fyrir aukningunni er sú að umsvifamestu flugfélögin hafa bætt framboð sitt umtalsvert. Til að mynda hefur ferðum Icelandair fjölgað um fjórðung frá þvi í júní 2012 og WOW air flýgur þrefalt oftar en fyrir tveimur árum.

Icelandair eitt og sér var með tvær af hverjum þremur ferðum í júní og hefur hlutdeild félagsins yfir sumarmánuðina nærri því staðið í stað milli ára þrátt fyrir aukið framboð annarra flugfélaga á þeim árstíma. Yfir vetrarmánuðina hefur hins vegar vægi félagsins minnkað. Til að mynda voru um átta af hverjum tíu ferðum frá landinu í febrúar árið 2013 á vegum Icelandair en í febrúar síðastliðnum var hlutfallið 69,2 prósent.