*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 28. júlí 2021 17:00

Festi hagnast um milljarð

Tekjur Festi uxu um 18% á milli ára og hagnaður félagsins tvöfaldaðist og nam milljarði í lok annars ársfjórðungs.

Snær Snæbjörnsson
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.
Aðsend mynd

Festi, móðurfélag N1, Krónunnar og Elko, hagnaðist um milljarð á öðrum ársfjórðungi. Hagnaður tvöfaldast jafnframt á milli ára en á sama tímabili í fyrra var hagnaður félagsins 525 milljónir króna.

Tekjur félagsins á fjórðungnum námu 24,3 milljörðum króna sem er 18% aukning frá því í fyrra. Framlegð af seldum vörum og þjónustu jókst um tæpan milljarð og nam 6.106 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBDITA) var 2.458 milljónir króna sem er 44% aukning frá fyrra ári. 

Rekstrarkostnaður félagsins nam 4.251 milljón króna á fjórðungnum og hækkar um 351 milljón króna frá sama tíma í fyrra. Launa- og starfsmannakostnaður hækkaði um 11,4% milli ára og nam 3.017 milljónum króna. Stöðugildum fjölgaði um 85 á milli ára og voru 1.195 við lok síðasta mánaðar.

Við lok tímabilsins námu eignir félagsins um 85 milljörðum króna og eigið fé félagsins um 29,9 milljörðum og eiginfjárhlutfall félagsins var því um 35%. 

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi:

Við erum mjög ánægð með rekstrarniðurstöðuna á öðrum ársfjórðungi þar sem öll félög Festi voru að gera mun betur en á sama tíma í fyrra og einnig betur en væntingar okkar voru fyrir annan ársfjórðung 2021. Sjóðsstreymi og fjárhagsleg staða félagsins er mjög sterk.

Starfsfólk okkar hefur staðið sig vel að venju og sýnt mikla þrautseigju við krefjandi aðstæður. Við náðum að klára söluskilyrði sáttar við Samkeppniseftirlitið frá 30. júlí 2018 í lok maí, með sölu verslunar Kjarvals á Hellu þar sem heimsfaraldurinn hafði talsverð áhrif. Samkomulag við Reykjavíkurborg um fækkun bensínstöðva var undirritað í lok júní eftir viðræður sem stóðu yfir í nokkur ár.  Það er mat okkar að sá samningur sé félaginu hagstæður og mikilvægur í þeim orkuskiptum sem við stöndum frammi fyrir. Stefna Festi er að vera leiðandi þegar kemur að umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð.

Stikkorð: Festi