FÍ fasteignafélag skilaði tapi sem nemur 43,8 milljónum króna á fyrri helmingi ársins, en á sama tíma á síðasta ári hagnaðist félagið um 76,3 milljónir króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Leigutekjur fyrirtækisins námu 215 milljónum króna og jukust umtalsvert milli ára, en þær námu 75,8 milljónum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður jókst um tæpar fimm milljónir króna milli ára og nam nú 129 milljónum króna.

Heildareignir félagsins námu 5,2 milljörðum króna þann 30. júní 2015 en skuldir voru tæplega 4,2 milljarðar króna. Eigið fé félagsins nam 979,4 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 18,9%.

Lífeyrissjóður verslunarmanna á stærstan hlut í FÍ fasteignafélagi og nemur eignarhluturinn 19,9%. Þá eiga A- og B-deildir LSR samtals 18,9% og Gildi lífeyrissjóður 14,9%.

Stærstu eignir félagsins eru fasteignin við Borgartún 25, hús Listaháskólans við Þverholt 11 og fasteignin við Ármúla 1 í Reykjavík.