Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir að samningaviðræður við BHM, sem fer með samningsumboð fyrir 18 stéttarfélög innan sinna vébanda, hafi gengið vel í dag. Öll 18 stéttarfélögin hafa boðað verkfallsaðgerðir eftir Páska, en óvíst er með lögmæti verkfallsboðunar fimm þeirra. Samningaviðræðurnar eru nú komnar á borð ríkissáttasemjara í ljósi þess að verkfallsaðgerðir hafi verið boðaðar. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV.

Þá kemur fram að BHM hafi farið fram á 48% launahækkun á næstu þremur árum, en ríkið býður 3,5% á ári. Verulega mikið ber á milli samningsaðila.

Óvíst er með lögmæti boðaðra verkfallsaðgerða fimm stéttarfélaga úr þessum hópi, enda hafi einungis þeir sem ætluðu sér í verkfall verið boðaðir til atkvæðagreiðslu um aðgerðirnar, en ekki allir félagsmenn eins og lög áskilja.

Áður hefur Félagsdómur dæmt verkfallsboðanir tæknimanna á Ríkisútvarpinu, náttúrufræðinga og Starfsgreinasambandsins ólögmætar. Síðastnefnda félagið hefur af þeim sökum ákveðið að endurtaka atkvæðagreiðslu þess efnis með lögformlegum hætti.