*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 6. júní 2020 19:01

Fimmaurarnir heilluðu

Fyrirtækið Fimmaurar sérhæfa sig í framleiðslu á íslenskri hönnun og endurnýtingu á efni.

Magdalena A. Torfadóttir
Feðginin Áslaug Stefánsdóttir, nemi og áhugaljósmyndari, og Stefán Gunnarsson, skrúðgarðyrkjumeistari.
Eyþór Árnason

Feðginin Áslaug Stefánsdóttir, nemi og áhugaljósmyndari, og Stefán Gunnarsson skrúðgarðyrkjumeistari stofnuðu nýverið fyrirtækið Fimmaurar. Fyrirtækið sérhæfir sig í íslenskri hönnun og endurnýtingu á efni. „Fyrirtækið okkar er í rauninni alveg glænýtt. Ég og pabbi minn höfum undanfarin ár verið að smíða saman og við ákváðum á síðasta ári að taka þetta skrefinu lengra og stofna fyrirtæki,“ segir Áslaug og bætir við að fólkið í kringum hana hafi hvatt hana eindregið til að láta verða af þessari hugmynd.

 „Við sérhæfum okkur í íslenskri hönnun og endurnýtingu á efni. Það sem við gerum er að við endurnýtum pallettur og alls konar efni sem við höfum safnað af okkur. Við framleiðum vínrekka, stóla og ýmislegt fleira. Það eru í rauninni engar aðrar sambærilegar vörur á markaðnum,“ segir Áslaug og bætir við að hún og faðir sinn séu í raun sjálfmenntuð á þessu sviði.

„Pabbi minn er ekki smiður að mennt en segja má að hann sé sjálflærður og hann hefur kennt mér allt sem ég kann. Hann er svo ótrúlega hæfileikaríkur og þess vegna er svo gaman að sjá hann njóta sín.“ Hún bætir við að pabbi sinn hafi litla reynslu af samfélagsmiðlum og því að koma sér á framfæri. „Hann pabbi er af gamla skólanum og ég hef svolítið verið að sjá um að koma okkur á framfæri. Ég hannaði til að mynda heimasíðu alveg frá grunni og tók myndir af vörunum okkar en ég er sjálf áhugaljósmyndari.“

Áslaug segir að fyrirtækið hafi hingað til ekki verið að auglýsa mikið en þó fengið ótrúlega góðar viðtökur. „Við höfum ekki verið að auglýsa mikið. Það er dálítið skemmtilegt hvað fregnir af fyrirtækinu hafa í raun bara borist manna á milli. Fólk kemur til okkar eftir að hafa séð vörurnar okkar heima hjá einhverjum til dæmis eða rekist á myndir frá okkur af heimasíðunni okkar, fimmaurar.is.“

Heiðrar minningu afa síns

Allar vörur fyrirtækisins Fimmaurar eru sérmerktar með fimmaurum. Að sögn Áslaugar kviknaði hugmyndin að því kennimerki vegna þess að feðginin fundu gamalt myntsafn sem tilheyrði afa hennar Gunnari Héðni Stefánssyni, flugumferðarstjóra og myntsafnara. „Afi var myntsafnari og við eigum fjöldann allan af krukkum stútfullum af gamalli smámynt. Fimmaurarnir eru svo flottir og það er eitthvað svo heillandi við þá. Hugmyndin um að setja fimmaurana á vörurnar okkar kviknaði fyrir fimm árum síðan og í kjölfarið prófuðum við að pússa þá upp og þá kom þetta svo vel út.“ Áslaug bætir við að þetta sé leið þeirra feðgina til að heiðra minningu afa hennar en hann féll frá áður en Áslaug fæddist. Hún bætir við að síðan séu fimmaurabrandarar ómissandi þáttur í starfi þeirra.

Áslaug stendur ekki aðeins í fyrirtækjarekstri heldur stundar hún einnig nám í félagsfræði og kynjafræði við Háskóla Íslands og er einnig í annarri vinnu samhliða því. „Það er alltaf nóg að gera og þetta getur verið svolítið bras að púsla þessu saman. En það sem í raun heldur mér gangandi er bara brennandi áhugi. Ég hef gífurlega gaman bæði af náminu og fyrirtækjarekstrinum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Fimmaurar