Almennu útboði með hlutabréf Eimskipafélags Íslands hf. lauk í dag. Samtals bárust tilboð í 11 milljarða króna, sem þýðir að eftirspurnin var 5-föld.

Gengið á hlutabréfunum ákvarðaðist í fagfjárfestaútboði sem lauk á miðvikudaginn í síðustu viku og er það 208 á hlut.

Í tilkynningu frá Eimskip kemur fram að samtals bárust áskriftir fyrir yfir ellefu milljarða króna eða sem nemur yfir fimmfaldri umframeftirspurn m.v. þann 5% hlut sem boðinn var til sölu af Landsbanka Ísland hf., ALMC hf. og Samson eignarhaldsfélagi ehf.

„Í ljósi mikillar umframeftirspurnar mun félagið, líkt og fram kom í skráningarlýsingu þess, auka við framboðið og selja 6.000.000 eigin hluti, eða sem nemur 3% af útgefnu hlutafé. Samtals eru því seldir 16.000.000 hlutir eða sem nemur 8% af útgefnu hlutafé félagsins,“ segir í tilkynningunni.

Alls skráðu um 2.500 fjárfestar sig fyrir hlutum í almenna útboðinu.

Samtals hefur því 42% hlutur í félaginu skipt um hendur í tengslum við skráningu félagins í Kauphöllina. Söluandvirði þessa 42% hluta er samtals yfir 17 milljarðar króna.

„Það er mér mikið ánægjuefni hversu vel fjárfestar hafa tekið félaginu, en niðurstöður útboðsins gefa til kynna að fjöldi hluthafa í kjölfar skráningar verði um þrjú þúsund sem þýðir að nú er félagið komið í þá dreifðu eignaraðild sem ég vonaðist eftir,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, í tilkynningunni.

„Fyrir hönd Eimskipafélags Íslands þakka ég nýjum hluthöfum og starfsmönnum félagsins það traust sem þeir hafa sýnt félaginu og hlakka til að eiga með þeim farsælt samstarf í framtíðinni.“