Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að tekjur ÍE vegna þjónustu við breska lífsýnisbankann UK Biobank munu nema 115 milljónum dollara, andvirði fimmtán milljarða króna. Áætlað er að ÍE ljúki sínum hluta verkefnisins á næsta ári en þjónustan er veitt á kostnaðarverði.

Tekjur ÍE á síðasta ári vegna téðs verkefnis námu tveimur milljörðum króna en alls velti félagið tólf milljörðum á síðasta ári. Heildareignir ÍE voru rúmlega 17 milljarðar króna í lok síðasta árs.

Greint var frá því í september í fyrra að ÍE myndi raðgreina 225 þúsund erfðamengi fyrir Biobank. Verkefnið er fjármagnað af stofnunum á vegum breskra heilbrigðisyfirvalda, Wellcome Sanger erfðavísindastofnuninni og lyfjafyrirtækjunum Amgen, Johnson & Johnson, Glaxosmithkline og AstraZeneca.