Fjöldatakmarkanir á samkomum verða rýmkaðar úr 20 í 50 manns en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti þetta eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun. Leyfilegur opnunartími veitingastaða verður lengdur til klukkan 23 en þeir mega taka við nýjum gestum til klukkan tíu á kvöldin, samkvæmt frétt Vísis . Nýju samkomutakmarkanirnar taka gildi á morgun.

Alls munu 200 manns fá að koma saman á viðburði í sviðslistum og íþróttaviðburðum þar sem hægt er að tryggja að fólk sé í sæti og að eins metra bils sé á milli fólks. Þá mega 150 manns koma saman í hverju rými í háskólum og framhaldsskólum.

Hlutfall þeirra sem mega koma saman í sundlaugum og líkamsræktum verður einnig hækkaður úr 50% í 75% af hámarksfjölda.