*

laugardagur, 25. janúar 2020
Fólk 1. október 2019 14:32

Finnur Pálmi til Nox Medical

Svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical hefur ráðið Finn Pálma Magnússon sem vörustjóra, en hann kemur frá Meniga.

Ritstjórn
Finnur Pálmi Magnússon hefur starfað síðastliðin sex ár hjá Meniga, nú síðast sem framkvæmdastjóri vöruþróunar, en núna verður hann vörustjóri hjá Nox Medical
Haraldur Guðjónsson

Finnur Pálmi Magnússon hefur verið ráðinn til starfa sem vörustjóri (e. product manager) hjá Nox Medical. Nox starfar í framleiðslu á vélbúnaði og hugbúnaði tengt svefnrannsóknum, en helstu verkefni Finns munu snúa að nýsköpun og þróun á nýjum þjónustum.

Þar verður áherslan helst á notendaupplifun og ný tækifæri í skýjalausnum, en Finnur hefur mikla reynslu þegar kemur að stafrænni vöruþróun. Á árum áður leiddi hann mörg af stærri vef- og appþróunarverkefnum hérlendis, var tæknistjóri Stjórnlagaráðs og vörustjóri hjá Marorku.

Síðastliðin sex ár hefur hann starfað hjá Meniga, nú síðast sem framkvæmdastjóri vöruþróunnar. Undir hans handleiðslu byggði Meniga upp teymi sem vinnur þvert á fyrirtækið með áherslu á hönnunarhugsun, notendaupplifun (UX) og nýsköpun. Hjá Meniga vann teymi Finns til fjölmargra verðlauna og náði góðum árangri með vörur sínar.

Svefnrannsóknir eru ört vaxandi svið í heilbrigðisgeiranum og segist fyrirtæki nú þegar hafa náð leiðandi stöðu með vörum sínum í svefnmælingum. Reynsla Finns í notendamiðaðri hönnun og hagnýtingu gagna til að bæta líf fólks mun nýtast vel í þeirri vegferð sem er framundan.

Þessa dagana er Finnur að rannsaka áhrif svefnskorts á nýbakaðra foreldra. Þá sérstaklega sinn eiginn þar sem hann býr í Kópavogi með Heiðu Harðardóttur, Sögu og nýbökuðum dreng.

Þegar færi gefst þá klappar hann hjólunum sínum og viðrar þau jafnvel á stígum og slóðum kringum borgina. Hann beitir hönnunarhugsun í eldhúsinu og þá vanalega með hressandi tónlist á fóninum. En í enda dags, ef Finnur fær kaffi, súrefni og internet. Þá er hann sáttur.