Einungis þrjú félög starfa nú á íslenska First North-markaðnum, en samkvæmt heimasíðu Nasdaq kauphallarinnar á Norðurlöndum eru þau 294 í heildina, þar af langflest í Svíþjóð. Nú bregður svo við að tvö félög hafa lýst yfir áhuga á skráningu á markaðinn, á innan við viku. Annars vegar er það Kvika banki sem lýsti því yfir í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri sínu að kostir skráningar yrðu skoðaðir, og hins vegar hugbúnaðarfyrirtækið Klappir Grænar lausnir hf. sem hefur óskað eftir skráningu á markaðinn nú í haust.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir að þótt ekki sé búið að taka ákvörðun enn hafi skráning á First North-markaðinn í Kauphöllinni oft komið upp í umræðum í stjórn. „Á síðasta fundi stjórnar var síðan ákveðið að skoða skoða kosti þess og galla. Væntanlega verður kynning á því lögð fram á næsta eða næstu stjórnarfundum og á grundvelli þess tekin ákvörðun,“ segir Ármann.

„Þetta er hugsað að mestu til þess að fá betri verðmyndun á bréf í félaginu. Umtalsverð viðskipti hafa átt sér stað með bréf í bankanum á undanförnum mánuðum og árum, en með þessu móti væri verið að fá betri og skipulegri verðmyndun á bréfin og hluthöfum gert auðveldara að eiga viðskipti með þau. Það er aðeins minna umstang í kringum þennan markað heldur en ef farið væri á aðallista Kauphallarinnar.“

Auðveldar útboð og greiðslu með bréfum í bankanum

Ármann segir að öfugt við það sem upphaflega hafi staðið til verði ekki fjölgun hluthafa í bankanum við kaup bankans á Virðingu og Öldu sjóðum, heldur séu kaupin greidd í reiðufé.

„Það voru aðrar hugmyndir uppi áður, en niðurstaðan var þessi. Hins vegar er nú í gangi forgangsréttarútboð til hluthafa Kviku, þannig að það liggur ekkert fyrir hvort það muni fjölga í hluthafahópnum. Heldur eru núverandi hluthafar að setja meiri pening inn í bankann, sem smám saman kallar á skýrari verðmyndun með bréfin en verið hefur,“ segir Ármann sem segir innkomu á First North-markaðinn geta auðveldað frekari sameiningar síðar meir.

„Það eru engin plön uppi um það, en að öllum líkindum yrði auðveldara að fara í útboð eða greiða með bréfum í bankanum ef þau hafa öruggara markaðsverð.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .