Leðurgerðin Atlantic Leather á Sauðárkróki framleiðir leður úr fiskroði. Leðrið sem fyrirtækið framleiðir er síðan notað í fatnað, töskur og fylgihluti en prófunarferli eru hafin til að nota leðrið í flugvélasæti og bílainnréttingar. „Hugmyndin að fyrirtækinu sprettur upp úr hópi sem starfaði við  gamla sútunarverksmiðju sem hét Loðskinn,“ segir Gunnsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri Atlantic Leather.

Hann segir að framleiðsluferlið sé langt frá því að vera auðvelt þar sem unnið sé úr skinni kaldblóðsdýra en ekki heitblóðsdýra líkt og hefðbundnar sútunaraðferðir nota. „Þróunarferlið fyrir fiskroðsleðrið tók mjög langan tíma. Lengi vel þá fjármögnuðum við fiskroðsframleiðsluna með loðskinnssútuninni. Með tímanum þá lagðist loðskinnssútunin af vegna hás launakostnaðar hér á landi en við héldum áfram að framleiða roðið og hefur það gengið mjög vel.“ Gunnsteinn segir þó að reksturinn hafi gengið upp og niður.

„Markaðsstarfið okkar hefur verið mjög dýrt og hefur því reksturinn rúllað í kringum núllið og hvort það gengur vel eða illa hjá okkur veltur mikið á því hversu mikið við setjum í markaðsstarf.“ Hann bætir við að það séu margar áskoranir sem fylgja því að koma með svo glænýja vöru inn á markaðinn. „Þetta er vara sem heimurinn einfaldlega þekkir ekki. Hönnuðir eru almennt séð mjög hrifnir af vörunni þegar við kynnum hana fyrir þeim en það að varan fari í framleiðslu strandar oft á tíðum á framleiðendunum sjálfum. Þeim finnst fiskroðið ekki henta í framleiðslu sökum smæðar og vilja fremur efni sem þeir geta unnið hratt og örugglega úr.“

Framleiða eigin vörulínu

Gunnsteinn segir að auk framleiðslunnar hafi fyrirtækið hannað sína eigin vörulínu. „Vörulínan okkar samanstendur af töskum og aukahlutum og hefur selst afskaplega vel. Fyrsta framleiðslan hefur til að mynda nánast öll selst upp. Við höfum mikið verið að fara á tískusýningar í útlöndum til að kynna vörulínuna okkar og hitta hönnuði,“ segir Gunnsteinn og nefnir að þau hafi meðal annars farið á virtar tískusýningar í París, Mílanó og er fyrirhuguð ferð til New York í júlí næstkomandi.

„Við stefnum þó á að fækka ferðum á þessar stóru tískusýningar bæði vegna þess hvað það er dýrt og auk þess eru alltaf færri og færri af okkar kúnnum að sækja þær. Við erum því nú í meiri mæli farin að nota netið til að markaðssetja okkur og ná í fleiri viðskiptavini.“ Spurður hvort hægt sé að fá roðið í fleiri litum segir hann að unnt sé að fá það í öllum regnbogans litum.

„Við bjóðum jafnframt upp á allt sem hægt er að gera með leður og meira til. Við sjáum einnig fyrir okkur að fara að framleiða húsgögn og það yrði þá lúxushönnun líkt og allar okkar vörur.“

Notað í föt, bíla og flugvélar

Fiskroðið frá Atlantic Leather er notað í ýmis föt og fylgihluti en fyrirtækið stefnir að því að roðið muni jafnframt vera notað í bílainnréttingar og flugvélasæti.

„Prófunarferlið fyrir bíla er afar strangt og þau skilyrði sem leðrið þarf að uppfylla er til dæmis að það þarf að þola að vera hitað við 120 gráður í 18 klukkutíma. Síðan er klukkutíma biðtími áður en það er síðan kælt niður í mínus 20 gráður í fjóra tíma. Síðan er þetta endurtekið átján sinnum og leðrið má aðeins skreppa saman um þrjú prósent,“ segir Gunnsteinn.

„Við erum samt bjartsýn á að við komumst í gegnum þetta prófunarferli burt séð frá því hversu strangt það er þannig að við erum mjög spennt fyrir framhaldinu.“ Gunnsteinn bætir við að um þessar mundir sé fyrirtæki í Sviss sem framleiðir fyrir Airbus flugvélarnar með roð frá þeim í prófunarferli.

„Laxaroðið er einstaklega létt og slitsterkt og hentar því afar vel í flugvélasæti. Það skiptir miklu máli að innréttingar í flugvélum séu léttar því það getur sparað eldsneyti. Laxaroð er til að mynda helmingi léttara efni en leður sem unnið er úr nautgripum en það er oftast notað í flugvélainnréttingar,“ segir Gunnsteinn.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Atvinnulíf á Norðurlandi sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .