Þróunin frá hruni á Íslandi er öðru fremur ytri aðlögun en ekki innri aðlögun að mati Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sem tekur þátt í ráðstefnu AGS og stjórnvalda sem nú fer fram í Hörpu. Rauði þráðurinn í máli Krugmans er að Íslandi hafi gengið betur að rétta sig af eftir hrunið en búast mátti við.

Hann veltir því þó fyrir sér hvers vegna Íslandi gengur ekki enn betur en raun ber vitni og segir að þar séu þrjár ástæður: Fiskur, ál og skuldir. Það er ekki hægt að búast við mikilli útflutningsaukningu enda séu framleiðslutakmarkanir á álframleiðslu og fiskveiðum. Skuldir Íslands eru því stór Þrándur í Götu.

Krugman segir það undarlegt hversu margir telji það einfalt mál að afnema höftin. Hættan á gjaldeyrishruni sé of mikil. Hann segir innri gengisfellingu ekki hafa reynst vel. Ísland sé ekki eina landið sem hafi lent í miklu innstreymi gjaldeyris og því sé það hæpið að telja flotkrónuna vera sökudólginn í gjaldeyrisstreyminu fyrir hrun. Upptaka evru sé ekki nein skyndilausn heldur megi færa rök fyrir því að halda krónunni vegna sveigjanleika þess sem hún veitir.