Stór, ef ekki stærstur hluti þess erlenda fjármagns sem streymt hefur til Íslands á síðustu misserum er ekki kvikt fjármagn í leit að vaxtamun heldur fjárfestingar sem hugsaðar eru til lengri tíma samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Viðmælandi blaðsins, sem þekkir til nýlegra fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi, segir að fjárfestingarnar séu að stofninum til fjármagnaðar með eigin fé. Eiginleg vaxtamunarviðskipti eru svokölluð gíruð viðskipti, þar sem tekin eru stór lán í lágvaxtamynt og fjárfest í hávaxtamynt á borð við íslensku krónuna. Vegna þess að lán eru tekin fyrir slíkum viðskiptum geta upphæðirnar orðið mjög stórar. Svo er ekki í tilfelli þess fjármagns sem komið hefur til landsins að undanförnu.

Þeir aðilar sem komið hafa með fjármagn til landsins hafa, samkvæmt heimildum blaðsins, gert það til að dreifa eignasafni sínu og sækja í þá ávöxtun sem hér býðst. Bæði er fjárfest í skuldabréfum og hlutabréfum. Meðal annars er um að ræða aðila sem stýra peningum fyrir fjárfesta á borð við háskólasjóði og íbúðalánasjóði.

Seðlabankinn kynnir nýjar reglur

Seðlabanki Íslands tilkynnti fyrr í mánuðinum að bankinn hygðist innleiða reglur sem hafa áhrif á virkan vaxtamun Íslands við útlönd. Markmið reglnanna eru öðrum þræði að auka stöðugleika þess erlenda fjármagns sem kemur til landsins. Þannig er talið að minnka megi líkurnar á skyndilegum flótta erlendra fjárfesta á landinu, með tilheyrandi óstöðugleika og upplausn á fjármálamarkaði.

Gjald á fjárfestingar erlendra aðila í innlendum fjármálagerningum, líkt og það sem er til umræðu innan Seðlabankans, tíðkast í nokkrum löndum. Í Suður-Kóreu var slíkt gjald lagt á árið 2011. 0,2% gjald var lagt á erlendar skuldir banka sem eru á gjalddaga innan árs, en lægra gjald á lengri skuldir.

Samkvæmt rannsókn suður-kóreska seðlabankans frá árinu 2013 hafði gjaldið blendin áhrif á efnahagsreikninga banka þar í landi. Útibú erlendra banka minnkuðu erlendar skammtímaskuldir sínar, en aðgerðin hafði engin áhrif á skuldir innlendra banka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .