Alþjóðlegir fjárfestar kættust eftir að bankastjórn bandaríska seðlabankans greindi frá því í gær að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 0,25% og að bankinn ætli að opna sjóði sínum á ný og dæla 40 milljörðum dala inn í efnahagslífið með kaupum á íbúðabréfum banka og fjármálafyrirtækja.

Aðgerðin er liður í því að gera almenningi kleift að endurfjármagna sig á ódýrari hátt en áður. Þá er aðgerðinni ekki síst ætlað að slá á neikvæð áhrif skuldakreppunnar á evrusvæðinu og minni eftirspurn eftir bandarískum vörum í Kína.

Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum tóku kipp af þessum sökum síðdegis í gær. Dow Jones-hlutabréfavísitalan hækkaði um 1,55% undir lok dags og Nasdaq-vísitalan um 1,33%.

Þá hækkaði Nikkei-vísitalan í Japan um 1,83%. Vísitölur á meginlandi Evrópu hafa verið á svipuðu róli. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur það sem af er degi hækkað um 1,65%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur hækkað um 1,54% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi hefur hækkað um 2%.

Gengi hlutabréfa í bönkum og fjármálafyrirtækjum hefur hækkað mest, um og yfir 4%.