Dregið hefur úr titringi í röðum fjárfesta í Asíu og Evrópu í dag. Talsverð gengislækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í gær eftir að Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri bandaríska seðlabankans, greindi frá því á miðvikudag að bankinn ætli hægt og bítandi að draga úr stuðningi við efnahagslífið. Stuðningurinn hefur aðallega falist í því að afla bönkum og fjármálafyrirtækjum lausafjár með kaupum á ríkisskuldabréfum í þeirra eigu.

Sem dæmi um óróleikann á mörkuðum í gær þá féll Dow Jones-hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum um 2,3% í gær og hafði annað eins ekki sést á árinu. Aðrar hlutabréfavísitölur fóru álíka mikið niður. Staðan var álíka slæm á evrópskum mörkuðum. Öðru máli gegnir í dag. Nikkei-vísitalan í Japan hækkaði um 1,66% og hafa vísitölur á meginlandi Evrópu sömuleiðis leitað upp á við.