Pólitísk óvissa og hátt skrifaðir markaðir valda fjárfestum miklum áhyggjum. Eftirspurn eftir gulli hefur aukist umtalsvert á stuttum tíma og hafa fjárfestar nú keypt allt að 1.064 tonn af gulli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá World Gold Council. Um er að ræða 16% meiri kaup en árið 2009, þegar gull var einnig í mikilli eftirspurn.

Á öðrum fjórðungi þessa árs tvöfaldaðist eftirspurn eftir gulli, ef miðað er við sama tíma í fyrra. Verð eðalmálmsins hefur því hækkað um rúmlega 25% það sem af er ári. Eftirspurn hefur þó dregist saman á Indlandi og í Kína, sem eru tvö lönd sem sækjast mikið eftir eðalmálminum.

Hækkandi verð hafa einnig haft áhrif á framleiðendur skartgripa og á lönd eins og Kína og Indland. Eftirspurn eftir gulli á Indlandi lækkaði um 18% og eftirspurn í Kína lækkaði um 14% á öðrum ársfjórðungi þessa árs. World Gold Council spáir því þó að verð muni halda áfram að hækka, þar sem fleiri fjárfestar eigi eftir að auka stöður í gulli. WGC spáir því að heildareftirspurn ársins muni nema 4.200 til 4.300 tonnum.