Fjárfestingarfélagið Aurora Holding hf., sem er í eigu íslenskra fjárfesta og var stofnað að MP fjárfestingabanka í janúar, hefur keypt 1,6% hlut í áfengisframleiðandanum Stumbras í Litháen. Fyrir hlutinn greiðir Aurora 1,45 milljón evra, eða um 126 milljónir króna.

Að sögn Donatas Frejus, forstjóra Aurora, er hér um að ræða áhugaverða fjárfestingu en Stumbras hefur að öllu leyti verið í eigu MG Baltic einkafjárfestingarfélagsins í gegnum eignarhaldsfélagið Mineraliniai Vandenys. Við kaupin fór hlutur Vandenys niður í 96,05%. Markaðsvirði Stumbras er metið á 7,7 milljarða króna í viðskiptunum. Þess má geta að MP Fjárfestingabanki og MG Baltic hafa áður átt í viðskiptum.

Fyrirhugað er að selja um það bil 40% hlut í félaginu og koma þannig viðskiptum með bréf félagsins á hreyfingu en félagið er skráð í kauphöllinni í Vilnius. Frejus sagðist ekki gera ráð fyrir að félagið myndi kaupa meira í Stumbras en það hefur undanfarið fjárfest í yfir 20 skráðum og óskráðum félögum. "Ef félagið nær að auka veltu bréfa sinna er ljóst að það er áhugaverður fjárfestingarkostur," sagði Frejus og tók fram að þeir hefðu engin áform um að hafa áhrif á stjórnun félagsins.

Fjárfestingarfélagið Aurora var stofnað í upphafi ársins og var hlutafé félagsins ákveðið 30 milljónir evra, eða um 2,6 milljarðar króna. Að sögn Frejus hefur helmingur hlutafjárins verið greiddur og hefur verið fjárfest fyrir það. Er gert ráð fyrir að hinn helmingu hlutafjárins verði sóttur nú í maí.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.